Nýjar atvinnuleysistölur fyrir september sýna að fækkað hefur í hópi langtímaatvinnulausra milli mánaða. Óvarlegt er þó að draga þá ályktun að umskipti séu að eiga sér stað.
Karl Sigurðsson, sviðsstjóri hjá Vinnumálastofnun, hefur ekki tæmandi skýringar á þessari fækkun nú, sem er nokkru meiri en á sama tíma í fyrra, en að hluta til sé þó áreiðanlega um árstíðabundna fækkun að ræða. Að einhverju leyti gætu líka úrræði fyrir atvinnulausa á borð við aukin námstækifæri átt hér hlut að máli.
Viðbúið er að stór hópur fólks sem hefur verið án atvinnu í langan tíma missi bótarétt sinn á næsta ári og þurfi að leita eftir fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna. Greinilegt var á nýafstaðinni fjármálaráðstefnu sveitarfélaga að sveitarstjórnarmenn hafa miklar áhyggjur af þessu. Frá 2006 hefur fjárhagsaðstoð sveitarfélaga aukist um 62%.
Sveitarfélög þurfa að öllum líkindum að búa sig undir að ríflega 1.000 einstaklingar, sem eru að missa rétt til atvinnuleysisbóta eftir langtímaatvinnuleysi, muni á næsta ári bætast í hóp þeirra, sem þurfa á fjárhagsaðstoð að halda.
Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir að fá þurfi nákvæmari upplýsingar frá Vinnumálastofnun áður en hægt er að segja fyrir um fjölgunina með vissu. „En okkur sýnist að það séu yfir þúsund manns sem koma inn á fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna á næsta ári,“ segir hann.
Þótt dregið hafi úr langtímaatvinnuleysi í seinasta mánuði eru enn ríflega 2.000 manns á atvinnuleysisskrá sem hafa verið atvinnulausir í tvö ár eða lengur.
Forsvarsmenn sveitarfélaganna vilja að bótatímabil atvinnuleysisbóta verði lengt í a.m.k. fjögur ár og helst í fimm. Bæði ASÍ og forsvarsmenn sveitarfélaga gagnrýna breytingu sem stjórnvöld leggja til í fjárlagafrumvarpi næsta árs um að eftir að þriggja ára samfelldu bótatímabili lýkur falli bætur niður í þrjá mánuði. Tímabundin heimild til atvinnuleysisbóta í fjögur ár verði framlengd með þessum takmörkum frá áramótum, og á að spara með því tæpar 800 milljónir.
Þetta hefur ekki mælst vel fyrir og tala forsvarsmenn á vinnumarkaði um þessa þrjá mánuði sem „sveltitíma“ bótaþega, sem missa bætur í þrjá mánuði og þurfa væntanlega margir að sækja um fjárhagsaðstoð til sveitarfélaga.
Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur ASÍ, segir mjög sérstaka hugmyndafræði búa þarna að baki. ,,Við höfum ekki tekið undir þetta,“ segir Halldór, sem lagði á það áherslu á fjármálaráðstefnunni að mestu varðaði nú „að varna stjórnlausri fjölgun þeirra sem sækja fjárhagsaðstoð til sveitarfélaga“.
Halldór vill endurskoða lögin og tryggja jafnræði í framkvæmd meðal fólks á landinu öllu og skoðað verði hvort binda eigi fjárhagsaðstoðina mun ákveðnari skilyrðum t.d. um þátttöku í vinnumarkaðsúrræðum, námi eða vímuefnameðferð.
Yfir 60% þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá hafa verið án atvinnu í hálft ár eða lengur. Menn eru uggandi yfir atvinnuástandinu þegar líður á haustið, að sögn Ólafs Darra. Erfiðlega hefur gengið að koma fjárfestingu í gang. „Menn þurfa virkilega að spýta í lófana.“
Óformleg könnun bendir til að 42% þeirra sem þurfa á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga að halda í dag eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Ætla má að þarna sé að hluta til um námsmenn að ræða en einnig fólk sem misst hefur bótarétt eftir langtímaatvinnuleysi og fleiri.
„Við höfum áhyggjur af því að þarna sé um hóp að ræða, sem gæti verið að festast inni í kerfi fátæktargildru,“ segir Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Um helmingur þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá hefur eingöngu lokið grunnskólaprófi en ætla má að um þriðjungur starfandi Íslendinga á vinnumarkaði hafi ekki lokið framhaldsnámi að loknum grunnskóla. „Það sem skín út úr öllum þessum tölum er að þeir standa höllustum fæti sem eru með minnstu menntunina,“ segir Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur ASÍ.