„Þetta er alltaf svona einhvern veginn svífandi yfir vötnunum. Þótt það sé endalaust sagt að þetta séu óskyld mál, aðgreind mál, ESB-umsóknin og þetta.“
Þetta segir Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og formaður utanríkismálanefndar Alþingis, í Morgunblaðinu í dag, spurður um tengslin á milli umsóknar íslenskra stjórnvalda um inngöngu í Evrópusambandið og Icesave-deilunnar.
Tekið er fram í nýrri stöðuskýrslu Evrópusambandsins um umsókn Íslands sem kom út fyrir helgi að Icesave-deilan sé enn óleyst og ljóst að litið er svo á í Brussel að ein forsenda þess að af inngöngu landsins í sambandið geti orðið sé að fundin verði ásættanleg lending í deilunni.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir, að ítrekað hafi komið fram í máli ráðamanna Evrópusambandsins, síðan umsóknin um inngöngu í það var send inn sumarið 2009, að um óskyld mál væri að ræða og sama hafa forystumenn ríkisstjórnarinnar sagt af ýmsu tilefni. Hins vegar hefur hvað eftir annað komið fram í skýrslum sambandsins um umsókn Íslands að lending í Icesave-deilunni sé nauðsynleg til þess að Íslandi verði veitt innganga í það.