Fljúgandi hálka er á suðvesturhorni landsins. Að sögn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu urðu sjö umferðaróhöpp í nótt og tvær bílveltur á Suðurlandsvegi eftir miðnætti í nótt. Þá valt bifreið á Suðurnesjum og bifreið fór út af við Grundartanga.
Að sögn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu varð önnur bílveltan í Lögbergsbrekku en hin varð við Heiðmerkurafleggjarann. Að sögn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins voru þrír fluttir á slysadeild með minniháttar áverka.
Lögreglan á Suðurnesjum segir að ein bílvelta hafi orðið á hringtorgi við Njarðvíkurafleggjaranns á Reykjanesbraut í nótt vegna hálku. Þá var einn útafakstur á brautinni, einnig í tengslum við hálku. Engin slys urðu á fólki.
Lögreglan segir sjö umferðaróhöpp hafi orðið á höfuðborgarsvæðinu þar sem menn hafi misst stjórn á bílunum, m.a. rekist á girðingar eða ljósastaura. Engin alvarleg meiðsli urðu á fólki.
Lögreglan vill koma þeim skilaboðum til ökumanna að fara varlega. Það sé fljúgandi hálka og að ökumenn taki tillit til aðstæðna.
Af öðrum verkefnum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þá var tilkynnt um þrjár líkamsárásir í nótt. Segir lögregla að um minniháttar pústra hafi verið að ræða.
Þá gista tveir menn fangageymslur vegna ölvunar.
Lögreglan segir að skemmtanahald í tengslum við Iceland Airwaves hátíðina hafi gengið vel.
Lögreglan á Suðurnesjum segir að ein líkamsárás hafi verið kærð í kjölfar slagsmála sem brutust út við skemmtistað í Reykjanesbæ. Lögreglan segir að sá sem hafi kært hafi ekki hlotið alverleg meiðsl.