Nokkrir minni jarðskjálftar, um 2 að stærð, urðu skömmu eftir miðnætti í nótt við Hellisheiðarvirkjun en kl. 00:16 mældist einn tæplega 3 á Richter og fannst hann vel í Hveragerði. Litlir skjálftar, um 1 að stærð, hafa mælst í morgun.
Að sögn Gunnars B. Guðmundssonar, jarðeðlisfræðings hjá Veðurstofu Íslands, voru skjálftarnir í nótt nokkuð þéttir og í kjölfar stærri skjálftans hringdu nokkrir íbúar í Hveragerði og létu vita að hann hefði fundist vel. Skjálftar hafa mælst áfram í morgun en þeir hafa, segir Gunnar, verið í mesta lagi rúmlega 1 á Richter. Skjálftar finnast yfirleitt ekki fyrr en þeir ná 2-2,5 stigum. Því segir Gunnar ólíklegt að íbúar í Hveragerði hafi fundið fyrir skjálftunum í morgun.