Eyrný Vals lætur í dag af störfum sem bæjarstjóri Voga á Vatnsleysuströnd. Að sögn Eyrnýjar var hún leyst frá störfum vegna breytinga á meirihlutanum, en fyrri meirihluti sprakk vegna deilna um lagningu háspennulína um sveitarfélagið.
Nýr meirihluti H-lista og L-lista var í kjölfarið myndaður og má nú ætla að meðal fyrstu verka hans verði að ráða nýjan bæjarstjóra. Eyrný segir að uppsögn hennar hafi ekki komið á óvart miðað við það sem á undan hafði gengið í bæjarstjórninni. Aðspurð segist hún ekki vita hver eftirmaður hennar verður. Ekki náðist í Ingu Sigrúnu Atladóttur, forseta sveitastjórnar.
Deilurnar í sveitastjórn Voga hafa snúist um hvort leggja skuli nýjar raflínur í jörð um land Voga. Það mál er að sögn Eyrnýjar í ferli og verður tekið fyrir í breyttu deiliskipulagi.