Breyta aldurstengdri örorku

mbl.is/Árni Torfason

Sjálfsbjörg segja að stjórnvöld ætli sér að spara hækkun örorkubóta með því að breyta forsendum fyrir útreikningi á aldurstengdri örorkuuppbót. Sparnaðurinn sé 200 milljónir vegna næsta árs.

Í ályktun frá Sjálfsbjörgu segir að í umræðu um fjárlagafrumvarpið hafi fjármálaráðherra barið sér á brjóst og tali um að bætur almannatrygginga hækki mjög mikið á árinu 2011, en Sjálfsbjörg bendir á að hækkun bótanna sé einungis í samræmi við hækkun launa í kjarasamningum frá því fyrr á árinu.  „Fljótt á litið virðast örorkulaun eiga að hækka í samræmi við hækkun samkvæmt kjarasamningum á næsta ári.  Þegar betur er að gáð er þó gert ráð fyrir að spara 200 milljónir króna „með því að breyta forsendum fyrir útreikningi á aldurstengdri örorkuuppbót“ eins og segir í greinargerð með frumvarpinu.

Sjálfsbjörg hefur bent á, síðast í ályktun frá því í apríl sl. að gera þurfi stórátak í hækkun örorkulauna.  Var þar ma. vísað í yfirlýsingar velferðarráðherra um að „algerlega óhjákvæmilegt væri að hækka bæturnar“. Vísað er í mat Öryrkjabandalags Íslands um að ástandið sé skelfilegt hjá alltof stórum hópi öryrkja.  Sjálfsbjörg leggur áherslu á að ekki einungis sé mikilvægt að hækka örorkulaunin heldur að full viðurkenning fáist á þeim aukakostnaði sem fólk með hreyfihömlun og öryrkjar almennt verða fyrir, svo sem hjálpartækja- og lyfjakostnaði,“ segir í frétt frá Sjálfsbjörgu.

„Aldraðir og öryrkjar voru látnir taka á sig miklar byrðar eftir hrunið 2008.  Það er skýlaus krafa Sjálfsbjargar landssambands fatlaðra að nú þegar landið fer að rísa þá verði öldruðum og öryrkjum þessa lands greidd mannsæmandi lífeyrislaun.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert