Erum miður okkar

Bergur Elías Ágústsson.
Bergur Elías Ágústsson.

„Við erum vitanlega miður okkar," sagði Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri Norðurþings, eftir fund bæjarráðs og hans með Tómasi Sigurðssyni, forstjóra Alcoa á Íslandi.

Á fundinum tilkynnti Tómas, að Alcoa væri hætt við að reisa og reka álver á Bakka við Húsavík.

Undirbúningur þessa verkefnis, að Alcoa reisti og ræki álver á Bakka hefur staðið í rúm sex ár og þegar upp er staðið liggur fyrir að Alcoa stendur ekki til boða nægilegt magn raforku, sem nauðsynlegt er til þess að knýja 250 þúsund tonna álver, eins og ráð hafði verið fyrir gert og ekki heldur það verð, sem er ásættanlegt til þess að fyrirtækið réðist í slíka fjárfestingu,“ sagði Bergur Elías.

Aðspurður hvort ákvörðun Alcoa kæmi heimamönnum í opna skjöldu sagði Bergur Elías: „Menn hafa lagt gríðarlega mikla vinnu á sig í mörg ár og hún hefur verið mörg brött brekkan sem við höfum þurft að fara upp. Maður getur kannski lítið gert, annað en lýsa yfir vonbrigðum með þessa niðurstöðu, en þó verður það að segjast eins og er, að hún er í takt við þær nýju áherslur sem ítrekað hafa komið fram hjá stjórnvöldum og Landsvirkjun á undanförnum misserum og kemur okkur þannig séð ekki á óvart.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert