Jafn mörg já og nei

Álverið í Straumsvík
Álverið í Straumsvík

Kjarasamningur milli Samtaka atvinnulífsins, fyrir hönd Alcan á Íslandi, og starfsmanna í verkalýðsfélögum sem vinna í álverinu var samþykktur. Jafn margir greiddu atkvæði með samningnum og gegn honum eða 175 atkvæði á hvorn veg. Einn skilaði auðu.

Kolbeinn Gunnarsson, formaður Verkalýðsfélagsins Hlífar, sagði að meirihluta greiddra atkvæða hefði þurft til að fella samninginn samkvæmt lögum um vinnudeilur og stéttarfélög (80/1939). „Þar er kveðið á um að samningur sé felldur ef það eru fleiri mótatkvæði,“ sagði Kolbeinn.

Aðspurður kvaðst Kolbeinn ekki muna eftir svona hnífjafnri niðurstöðu í kosningu um kjarasamning.

Svohljóðandi frétt birtist á heimasíðu Verkalýðsfélagsins Hlífar:

„Atkvæðagreiðsla um kjarasamning milli Samtaka atvinnulífsins f.h. Alcan á Íslandi annars vegar og Verkalýðsfélagsins Hlífar, VM Félags vélstjóra og málmtæknimanna, Rafiðnaðarsambandsins Íslands vegna Félag íslenskra rafvirkja og Félags rafeindavirkja, FIT Félags iðn- og tæknigreina, VR og Matvís hins vegar er lokið.

Samningurinn var samþykktur og er niðurstaða talningar eftirfarandi:

Á kjörskrá voru 388 manns, 351 greiddu atkvæði eða 90,46%, Já sögðu 175 eða 49,86%, nei sögðu 175 eða 49,86% og 1 seðill var auður 0,28%.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert