Allir sakborningar í skattahluta Baugsmálsins neituðu sök þegar aðalmeðferð málsins hófst í morgun. Jón Ásgeir Jóhannesson hefur í morgun verið yfirheyrður um ýmislegt sem lítur að hans persónulegum skattskilum, m.a. um háar greiðslur frá Baugi og Gaumi og um afnot af þremur bifreiðum í eigu Gaums.
Meðal þess sem Jón Ásgeir var spurður að var hvernig stæði á um 11,8 milljón króna greiðslum frá Bónusi sf. sem þá var í eigu hlutafélagsins Baugs. Jón Ásgeir svaraði að þessi greiðsla hefði verið ætluð Gaumi. Hann hefði ekki séð um þennan reikning, sem var einn af fleiri bankareikningum hans, heldur hefði fjármálastjóri Bónuss séð um hann. Kvaðst hann ekki hafa orðið var við að þessi greiðsla hefði borist inn á reikninginn.
Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari, benti þá á að þessi tiltekni reikningur hefði verið yfirdreginn um 56.000 krónur og spurði aftur hvort Jón Ásgeir hefði ekki orðið var við greiðsluna en fékk sömu svör: svo hefði ekki verið.
Í öðrum ákæruliðum vísaði Jón Ásgeir m.a. til mistaka sem endurskoðandi sinn hefði gert.
Meðal þess sem ákært er fyrir er að Jón Ásgeir hafi haft afnot af þremur bílum í eigu Gaums, án þess að greiða skatta af þeim hlunnindum. Um var að ræða Porsche-bifreið og tvo jeppa, Hummer og Cherokee. Jón Ásgeir sagði að þótt hann hefði getað notað Porsche-bílinn og Hummerinn, þ.e. þegar hann hafi ekki verið bilaður, hefði hann engin afnot haft af Cherokee-jeppanum. Hann hefði fyrrum eiginkona hans haft, skv. ákvörðun Gaums. Jón Ásgeir bætti því við að hann hefði síðar verið látinn greiða hlunnindaskatt af þessum bílum og það hefði hann gert, ósáttur.