Ræningja og þýfis enn leitað

Lögregla er að störfum í Vesturbæ Reykjavíkur í tengslum við …
Lögregla er að störfum í Vesturbæ Reykjavíkur í tengslum við ránið í morgun. Mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Mennirnir þrír sem handteknir voru á Hringbraut fyrir skömmu tengjast ekki vopnuðu ráni sem framið var í Michelsen í morgun, að sögn lögreglu. Mennirnir voru í bíl, sem tilkynnt var að hefði verið stolið.

Allt tiltækt lögreglulið á höfuðborgarsvæðinu auk sérsveitarinnar leita enn að ræningjum og þýfi.

Eins og fram hefur komið ruddust þrír vopnaðir menn inn í úraverslun Michelsen á 11. tímanum í morgun. Lögregla útilokar ekki að fleiri séu viðriðnir málið, en líklegt þykir að annar flóttabíll hafi beðið ræningjanna þar sem sá fyrri var skilinn eftir í Þingholtunum.

Talið er að ræningjarnir séu af erlendum uppruna, en það er þó ekki fullvíst að sögn lögreglu. Greinargóðar lýsingar á mönnunum úr eftirlitskerfi verslunarinnar liggja ekki fyrir, en samkvæmt lýsingu vitna voru mennirnir með hettur á höfði. Einn þeirra var dökkklæddur í brúnni úlpu og annar klæddur í bláan samfesting.

Tvær byssur hafa fundist en um eftirlíkingar var að ræða. Lögregla hefur verið við leit í Vesturbæ Reykjavíkur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert