Rysjótt í kvöld og nótt

Spáð er leiðindaveðri víða um land. Myndin er úr myndasafni.
Spáð er leiðindaveðri víða um land. Myndin er úr myndasafni. Ómar Óskarsson

Veður fer versnandi norðaustanlands og síðar austanlands, hríðarveður á fjallvegum ofan 400 metra og krapi þar fyrir neðan. Þó rigning víðast á láglendi.  Vindur norðanstæður, yfirleitt 18-20 m/s til fjalla og skyggni mjög takmarkað. Þetta kemur fram í ábendingu veðurfræðings hjá Vegagerðinni.

Með kvöldinu dregur úr snjókomu og éljum á Vestfjörðum, í Dölum og eins vestantil á Norðurlandi, en ekki fyrr en í nótt eða snemma í fyrramálið norðaustan- og austanlands.

Vaxandi veðurhæð er spáð suðaustanlands. Á svæðinu frá Suðursveit austur í Berufjörð er spáð N- og NV-átt, byljóttum vindi og vindhviðum yfir 30 m/s frá því í kvöld um kl. 21 til 22.

Vindur gengur hins vegar mikið niður vestanlands í kvöld, en gert er ráð fyrir hviðum 30-40 m/s á Kjalarnesi og í Staðarsveit fram undir kl. 20 til 21.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert