„Þeir voru eldsnöggir að þessu“

Lögregla og sérsveit er nú að störfum í úraverslun Michelsen …
Lögregla og sérsveit er nú að störfum í úraverslun Michelsen á Laugavegi þar sem framið var vopnað rán í morgun. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

„Við heyrðum brothljóð og héldum að það væri kannski eitthvað út af veðrinu, en þegar við kíktum út sáum við þrjá hettuklædda menn inni í Michelsen, þeir brjóta þar glerskápana við gluggann og við horfum á þá fylla töskur sem þeir eru með,“ segir Markús Már Efraím, starfsmaður Máls og menningar á Laugavegi.

Starfsfólk bókabúðarinnar varð vitni að því þegar vopnað rán var framið í úraversluninni Michelsen skömmu eftir opnun í morgun. Markús segir að þrír menn hafi verið að verki, allir fremur þéttvaxnir, með svartar lambhúshettur á höfði og klæddir í gömul, snjáð föt. Mennirnir ógnuðu starfsfólki með byssu og voru auk þess allir vopnaðir e-s konar hömrum sem þeir notuðu til að brjóta sér leið inn í skápana. Ekki er enn ljóst hvort um leikfangabyssu eða raunverulegt vopn var að ræða.

Að sögn Markúsar virtist ránið þaulskipulagt og eftir aðeins 2-3 mínútur hafi þeir hlaupið að bifreið sem lagt var á Vegamótastíg og brunað burt, með að því er virðist mikið magn af þýfi. „Það eru allavega alveg tómir gluggarnir þarna núna og ég horfði á þá moka ofan í töskurnar úr útstillingarglugganum. Þeir voru eldsnöggir að þessu,“ segir Markús.

Fáir voru á ferli á Laugavegi þegar ránið átti sér stað en þó urðu nokkrir vitni að ráninu. Starfsfólk Máls og menningar hringdi samstundis á lögreglu og verslunarstjórinn hljóp svo yfir götuna þegar ræningjarnir voru farnir til að kanna líðan starfsfólks Michelsen. Að sögn Markúsar voru tveir starfsmenn í versluninni sem ræningjarnir skipuðu að leggjast á gólfið meðan þeir athöfnuðu sig. „Okkur er mjög brugðið hérna og ég get rétt ímyndað mér hvernig þeim líður hinum megin við götuna að hafa verið með byssu í andlitinu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka