Stefán Hilmarsson, fyrrum endurskoðandi Baugs og Gaums, sagði fyrir dómi í dag að hann hefði ákveðið að iðgjöld vegna líftrygginga, sem ákært er vegna í skattahluta Baugsmálsins, hefðu ekki verið talin til hlunninda í samræmi við skattaframkvæmd. Þá sagði hann að einn ákæruliðurinn sem beinist gegn Kristínu Jóhannesdóttur væri til kominn vegna hans eigin mistaka.
Bæði Tryggvi Jónsson og Jón Ásgeir Jónsson eru ákærðir vegna þess að iðgjaldagreiðslur á líftryggingum þeirra og fleiri stjórnenda hjá Baugi voru ekki gefnar upp til skatts. Fyrir dómi í gær sagði Jón Ásgeir að í einhverjum tilvikum hefðu líftryggingar verið greiddar, í sumum tilvikum sjúkratryggingar og einhverjum tilvikum væri um lífeyrissparnað að ræða. Hann ítrekaði að útreikningur á launum og hlunnindum lykilstarfsmanna hefði verið í höndum endurskoðunarfyrirtækisins KPMG. Hann hefði ekki komið að þessum útreikningum heldur hefðu þeir verið í höndum fagaðila.
Tryggvi Jónsson sagði fyrir dómi í gær að þar sem borguð hefðu verið iðgjöld af tryggingunum mánaðarlega hlytu þetta hlytu að vera einhverjar aðrar greiðslur en eingöngu líftryggingagreiðslur.
Stefán sagði fyrir dómi nú í morgun að um hefði verið að ræða meira en eingöngu líftryggingar, þetta hefðu líka verið vegna sjúkratrygginga. Þessi kostnaður hafi ekki talinn frádráttarbær fyrir Baug og því hefði félagið borgað skattinn af þessu. Þetta hafi verið gert miðað við viðtekna skattaframkvæmd á þessum árum og í samræmi við þrjá úrskurði yfirskattanefndar frá 1997. Hann sagði aðspurður af verjanda Jóns Ásgeirs, að hann hefði sjálfur tekið ákvörðun um þetta í samráði við Önnu Þórðardóttur. Jón Ásgeir hefði ekki komið nærri ákvörðuninni og jafnvel þótt hann hefði kynnt sér skil á staðgreiðslusköttum Baugs hefði hann ekki getað séð hvernig þessum málum var háttað.
Varðandi niðurfærslu á hlutafé í sænsku pizzufyrirtæki upp á um 74 milljónir. Stefán sagði að þetta hlutafé hefði verið talið tapað og því verið fært niður í reikningsskilum en hins vegar láðst að bakfæra það á skattaframtali. Þetta væru hans mistök. Um það ákæruatriði að Gaumur hafi vantalið söluhagnað upp á ríflega 900 milljónir sagði Stefán að í því tilviki hafi verið frestað að telja fram söluhagnað, í samræmi við reglur. Kristín hefði ekki gefið nein fyrirmæli um hvernig ætti að færa þessi viðskipti til bókar enda hefði það einfaldlega verið gert í samræmi við gildandi reglur.
Verjendur Jóns Ásgeirs, Tryggva og Kristínar spurðu skjólstæðinga sína öll að því í gær hvort þau hefðu fært bókhald fyrirtækjanna, skilað skattframtölum eða skilagreinum og fengu þau svör í öllum tilvikum að svo hefði ekki verið.
Jón Ásgeir sagði að hann hefði ekki sjálfur séð um skattframtöl sín á því tímabili sem ákæran tekur til heldur hefði annars vegar Ragnar Þórhallsson og hins vegar Stefán Hilmarsson séð um það.
Stefán sagði fyrir dómi í dag að Ragnar hefði séð um framtölin 1998 og 1999. Frá og með þeim tíma urðu skattskilin rafræn og eftir það sá Ragnar um að safna upplýsingum og gera uppkast en Stefán fór yfir þau og skilaði þeim inn til KPMG, endurskoðunarfyrirtækisins. Jón Ásgeir hafi treyst þeim fyrir framtalinu og Stefán hafi eitt sinn áritað það fyrir hönd Jóns Ásgeirs.