Bakkadraumur var villuljós

Tölvugerð mynd sem sýnir hvar fyrirhugað álver Alcoa átti að …
Tölvugerð mynd sem sýnir hvar fyrirhugað álver Alcoa átti að rísa á Bakka við Húsavík.

Þing­menn fjölluðu tals­vert í upp­hafi þing­fund­ar í dag um þá ákvörðun Alcoa á Íslandi að hætta við að reisa ál­ver á bakka við Húsa­vík. Þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar sagði m.a. að Bakka­draum­ur­inn hefði verið villu­ljós en þingmaður Fram­sókn­ar­flokks gagn­rýndi stjórn­völd fyr­ir að þvæl­ast fyr­ir verk­efn­um í Þing­eyj­ar­sýslu.

Mörður Árna­son, þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, sagðist vilja óska vin­um sín­um og upp­al­end­um í Þing­eyj­ar­sýsl­um til ham­ingju með það að loks skuli hafa slokknað á þessu villu­ljósi, sem sett var upp fyr­ir þá fyr­ir mörg­um árum.

„Það er von­andi að þetta sé í síðasta skipti sem ál­fyr­ir­tæki og mis­vit­ur stjórn­völd toga heil héröð á asna­eyr­un­um í at­vinnu­upp­bygg­ingu sem aldrei var for­senda fyr­ir," sagði Mörður.

Magnús Orri Schram, þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, sagði að það hefði verið far­sæl ákvörðun á sín­um tíma að segja upp ein­ok­un­ar­samn­ingi Alcoa á ork­unni fyr­ir norðan enda hefði fyr­ir­tækið ekki verið til­búið til að greiða sam­keppn­is­hæft orku­verð.

Hösk­uld­ur Þór­halls­son, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins, sagði að aðkoma stjórn­valda að at­vinnu­upp­bygg­ingu á Bakka væri ein sorg­ar­saga síðan nú­ver­andi rík­is­stjórn tók við völd­um. Og Birk­ir Jón Jóns­son, flokks­bróðir hans, sagði að frétt­ir gær­dags­ins væru mik­il von­brigði. Nú væri komið að því að rík­is­stjórn­in stæði við stóru orðin um stór­fellda at­vinnu­upp­bygg­ingu í at­vinnu­mál­um í stað þess að þvæl­ast fyr­ir verk­efn­un­um eins og raun­in hefði verið til þessa.

Tjöld­in fall­in

Bjarni Bene­dikts­son, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks, sagðist harma þá niður­stöðu sem kynnt var í gær. Nú væri ljóst að leiktjöld­in væru fall­in og aldrei hefði neitt verið meint með orðum um stuðning við þetta verk­efni því um leið og verk­efnið hefði verið slegið af kæmu stjórn­ar­liðar og fögnuðu niður­stöðunni.

Sagði Bjarni, að niðurstaðan væri fólki fyr­ir norðan gríðarleg von­brigði enda væri ekk­ert annað í hendi. Og þegar Mörður Árna­son talaði um að stjórn­völd eigi ekki að draga norðan­menn á asna­eyr­un­um væri hann vænt­an­lega að tala um rík­is­stjórn Jó­hönnu Sig­urðardótt­ur.

Sig­mund­ur Ern­ir Rún­ars­son, þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, sagði að  horfa yrði til fjöl­breyttr­ar upp­bygg­ing­ar í at­vinnu­lífi. Sagði Sig­mund­ur Ern­ir að fólks­fækk­un hefði orðið í Norðurþingi vegna þess að eins­leitn­in í at­vinnu­líf­inu hefði leikið byggðarlagið illa. Þess vegna fagnaði hann þeim fjöl­breyttu kost­um, sem nú væru fyr­ir hendi á svæðinu.

Þór Sa­ari, þingmaður Hreyf­ing­ar­inn­ar, sagðist telja að niðurstaðan, sem kynnt var í ál­vers­mál­inu í gær væri heppi­leg vegna þess að ljóst væri að næg orka væri ekki fyr­ir hendi á svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert