Bakkadraumur var villuljós

Tölvugerð mynd sem sýnir hvar fyrirhugað álver Alcoa átti að …
Tölvugerð mynd sem sýnir hvar fyrirhugað álver Alcoa átti að rísa á Bakka við Húsavík.

Þingmenn fjölluðu talsvert í upphafi þingfundar í dag um þá ákvörðun Alcoa á Íslandi að hætta við að reisa álver á bakka við Húsavík. Þingmaður Samfylkingarinnar sagði m.a. að Bakkadraumurinn hefði verið villuljós en þingmaður Framsóknarflokks gagnrýndi stjórnvöld fyrir að þvælast fyrir verkefnum í Þingeyjarsýslu.

Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, sagðist vilja óska vinum sínum og uppalendum í Þingeyjarsýslum til hamingju með það að loks skuli hafa slokknað á þessu villuljósi, sem sett var upp fyrir þá fyrir mörgum árum.

„Það er vonandi að þetta sé í síðasta skipti sem álfyrirtæki og misvitur stjórnvöld toga heil héröð á asnaeyrunum í atvinnuuppbyggingu sem aldrei var forsenda fyrir," sagði Mörður.

Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að það hefði verið farsæl ákvörðun á sínum tíma að segja upp einokunarsamningi Alcoa á orkunni fyrir norðan enda hefði fyrirtækið ekki verið tilbúið til að greiða samkeppnishæft orkuverð.

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði að aðkoma stjórnvalda að atvinnuuppbyggingu á Bakka væri ein sorgarsaga síðan núverandi ríkisstjórn tók við völdum. Og Birkir Jón Jónsson, flokksbróðir hans, sagði að fréttir gærdagsins væru mikil vonbrigði. Nú væri komið að því að ríkisstjórnin stæði við stóru orðin um stórfellda atvinnuuppbyggingu í atvinnumálum í stað þess að þvælast fyrir verkefnunum eins og raunin hefði verið til þessa.

Tjöldin fallin

Bjarni Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagðist harma þá niðurstöðu sem kynnt var í gær. Nú væri ljóst að leiktjöldin væru fallin og aldrei hefði neitt verið meint með orðum um stuðning við þetta verkefni því um leið og verkefnið hefði verið slegið af kæmu stjórnarliðar og fögnuðu niðurstöðunni.

Sagði Bjarni, að niðurstaðan væri fólki fyrir norðan gríðarleg vonbrigði enda væri ekkert annað í hendi. Og þegar Mörður Árnason talaði um að stjórnvöld eigi ekki að draga norðanmenn á asnaeyrunum væri hann væntanlega að tala um ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.

Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að  horfa yrði til fjölbreyttrar uppbyggingar í atvinnulífi. Sagði Sigmundur Ernir að fólksfækkun hefði orðið í Norðurþingi vegna þess að einsleitnin í atvinnulífinu hefði leikið byggðarlagið illa. Þess vegna fagnaði hann þeim fjölbreyttu kostum, sem nú væru fyrir hendi á svæðinu.

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, sagðist telja að niðurstaðan, sem kynnt var í álversmálinu í gær væri heppileg vegna þess að ljóst væri að næg orka væri ekki fyrir hendi á svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert