Baldur er bráðabirgðalausn

Breiðafjarðaferjan Baldur í Landeyjahöfn.
Breiðafjarðaferjan Baldur í Landeyjahöfn.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, telur að sá kostur að nota Breiðafjarðaferjuna Baldur til að sigla milli lands og Eyja geti aldrei orðið nema bráðabirgðalausn á samgöngumálum Eyjamanna.

Þetta kemur fram í grein sem Elliði skrifar á vef Eyjafrétta. Elliði bendir á að Baldur er gamalt skip, nokkru eldra en Herjólfur. Aflið í honum sé nokkuð mikið minna en í Herjólfi en á móti komi að hann sé mikið minni (600 tonn á móti 2000 tonnum).

„Burðageta skipsins er talsvert mikið minni en þörf er á en aðbúnaður farþega er góður í styttri siglingum. Baldur er hinsvegar óheppilegur til siglinga í Þorlákshöfn og ljóst að jafnvel þótt hann yrði notaður til siglinga í Landeyjahöfn þá þarf Herjólfur eftir sem áður að sigla í Þorlákshöfn þegar ekki gefur til siglinga Baldurs í Landeyjahöfn. Hjá því verður hinsvegar ekki horft að siglingar á Baldri gengu afbragðs vel þann tíma sem hann leysti Herjólf af. Mestu skiptir þar að hann er grunnristur. Rista skipsins er það lítil að sérfróðir telja að hægt verði að halda nægu dýpi fyrir það nánast allt árið. Baldur þolir einnig meiri ölduhæð en Herjólfur og frátafir vegna ölduhæðar verða að sama skapi minni. Baldur verður þó aldrei nema skammtíma lausn á vanda okkar og í ljósi þess að breytingar á honum eru kostnaðarsamar þá er hann –jafnvel sem vetrarlausn- vart í boði nema að leit að heppilegra skipi skili ekki árangri,“ segir Elliði.

Greinin í Eyjafréttum

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka