Sjálfstæðisfélag Húsavíkur og nágrennis segir að stjórnvöldum hafi nú tekist að koma í veg fyrir að Alcoa reisti álver á Bakka við Húsavík.
Í ályktun, sem samþykkt var á aðalfundi Sjálfstæðisfélags Húsavíkur og nágrennis, er harmað að íslensk stjórnvöld hafi brugðið fæti fyrir uppbyggingu álvers Alcoa á Bakka og þannig stöðvað framgang stærstu einstöku atvinnuuppbyggingar á Norðurlandi frá upphafi.
„Sveitarfélög í Þingeyjarsýslum hafa í góðri samvinnu við Alcoa unnið að undirbúningi verkefnisins af heilindum síðast liðin 6 ár með það að markmiði að treysta grundvöll byggðar í Þingeyjarsýslum og snúa við neikvæðri atvinnu- og íbúaþróun síðustu áratuga. Á undanförnum þremur árum hafa núverandi stjórnvöld gert nánast allt til að tefja framgang verkefnisins í þeim, sem virðist, eina tilgangi að fæla Alcoa frá. Nú er ljóst að það hefur tekist og hefur Alcoa sagt sig endanlega frá verkefninu," segir m.a. í ályktuninni.
Minnt er á sameiginlega viljayfirlýsingu sveitarfélaganna og núverandi stjórnvalda um að orkan í Þingeyjarsýslum skuli nýtt í héraði til frekari atvinnuuppbyggingar. „Þingeyingar munu ekki hvika frá þeirri kröfu, nú sem fyrr," segir síðan.