Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur lagt fram á Alþingi frumvarp um breytingu á lögum um matvæli. Verði það að lögum verður m.a. heimilt að selja heimabakstur í þágu góðgerðarstarfsemi en sem kunnugt er var það bannað.
Í frumvarpinu er góðgerðastarfsemi einnig skilgreind en hún er „starfsemi sem hefur það einasta markmið að verja hagnaði sínum til almenningsheilla, svo sem líknarmála, íþróttamála, félagsmála og vísinda- eða hjálparstarfsemi.“
Í athugasemdum við frumvarpið kemur m.a. fram að samkvæmt núgildandi lögum um matvæli séu „einstaklingar eða félagasamtök sem matreiða og bjóða matvæli án endurgjalds eða til sölu í þágu góðgerðarmála“ matvælafyrirtæki í skilningi laganna.
Með þeirri breytingu sem lögð er til í frumvarpinu er verið að koma til móts við kröfu almennings um að félagasamtök eða einstaklingar geti lagt ýmsum málefnum lið „með því að bjóða almenningi gegn gjaldi matvæli sem matreidd eru eða bökuð í eldhúsum heima við eða öðrum eldhúsum sem ekki hafa verið samþykkt af opinberum eftirlitsaðilum.“