Á líftækni- og lífefnasviði Matís er verið að rannsaka lífvirk efni úr þangi og þörungum sem hafa jákvæða virkni í mannslíkamanum.
Þau hafa verið notuð t.d. í heilsuvörur til að fyrirbyggja ýmsa kvilla og sjúkdóma en Matís er að skoða notkun lífvirku efnanna til íblöndunar í matvæli og snyrtivörur. Þau gætu reynst þjóðinni milljarða virði á næstu árum.
Frá þessu verður nánar sagt í fyrirlestri Rósu Jónsdóttur, matvælafræðings og fagstjóra líftækni- og lífefnasviðsins, á matvæladegi MNÍ (Matvæla- og næringarfræðafélag Íslands) sem haldinn er í dag á Hilton Nordica hóteli.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að lífvirku efnin eru m.a. andoxunarefni og draga þannig úr oxun í matvælum og auka með því geymsluþol og stöðugleika þeirra. Þá stuðla þau að betri geymslu á snyrtivörum en eru ekki síður góð fyrir viðhald og viðgang húðfrumna, auk þess að hafa jákvæð heilsufarsleg áhrif í líkamanum.