Skortur á starfsfólki vandamál fyrirtækja

Mestur skortur er á ófaglærðu starfsfólki
Mestur skortur er á ófaglærðu starfsfólki mbl.is/Ómar

Fimmta hvert (18%) aðild­ar­fyr­ir­tæki SA tel­ur skort á ófag­lærðu starfs­fólki vera eitt af helstu vanda­mál­um fyr­ir­tæk­is­ins við nú­ver­andi aðstæður. Skort­ur á starfs­fólki með starfs- og fram­halds­mennt­un er eitt af helstu vanda­mál­um 13% fyr­ir­tækja og eitt af hverj­um tíu fyr­ir­tækj­um nefn­ir skort á há­skóla­menntuðu fólki. Þetta kem­ur fram í nýrri könn­un SA um vinnu­markaðinn og efna­hags­horf­ur.

Þetta vek­ur at­hygli í ljósi þess að 11.900 voru skráðir at­vinnu­laus­ir í ág­ústlok. Sér­stak­lega er at­hygl­is­vert að mest­ur skort­ur er á ófag­lærðu starfs­fólki en helm­ing­ur at­vinnu­lausra telst til þess hóps, 6.000 manns, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Sam­tök­um at­vinnu­lífs­ins.

Sam­kvæmt könn­un­inni telja 7% fyr­ir­tækj­anna skort á starfs­fólki vera helsta vanda­mál fyr­ir­tæk­is­ins. Skort­ur á ófag­lærðu starfs­fólki háir þess­um fyr­ir­tækj­um mest, þar á eft­ir kem­ur skort­ur á starfs­fólki með starfs- og fram­halds­mennt­un og loks skort­ur á há­skóla­menntuðu fólki.

Stjórn­völd hafa lýst yfir vilja sín­um til að vinna með aðilum vinnu­markaðar­ins að til­rauna­verk­efni um þjón­ustu við at­vinnu­lausa í því skyni að stuðla m.a. að virk­ari vinnu­markaðsaðgerðum og vinnumiðlun.

Taki aðilar vinnu­markaðar­ins að sér fag­lega stýr­ingu verk­efn­is­ins verður ná­lægð við þá sem eru at­vinnu­laus­ir og við vinnu­markaðinn meiri en nú er. Mark­miðið er að bæta þjón­ustu við at­vinnu­lausa, nýta öfl­ugri úrræði og virk­ari vinnumiðlun.

Þessi niðurstaða könn­un­ar SA staðfest­ir að leita þarf nýrra leiða til að auka virkni vinnumiðlun­ar, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Sam­tök­um at­vinnu­lífs­ins.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert