Bréf valda þingmönnum áhyggjum

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði á Alþingi í dag að það hljóti að valda þingmönnum áhyggjum að sjá bréfaskipti forsætisráðherra og forseta Ísland og hve forsætisráðherra hefði leyft sér að fara langt út fyrir valdsvið sitt og inn á svið forsetans og þingsins.

Hvatti Sigmundur Davíð forseta Alþingis til að ræða þessi mál við forsætisráðherra og útskýra fyrir honum hvert valdsvið hans er og hvetja hann til að láta af bréfaskriftum af þessu tagi.

Þá sagði Sigmundur Davíð, að forseti Alþingis ætti að útskýra fyrir þingmönnum, að ekki væri hægt að leyfa sér hvað sem er þegar rætt væri um forsetaembættið og forsetann. Sýna þyrfti því embætti lágmarksvirðingu.

„Þótt forseti Íslands hafi lagt meira til þess að bæta stöðu ríkissjóðs (...) heldur en stjórnarliðið þýðir ekki að fara í hefndaraðgerðir, vera fullur heiftar og skrifa reiðipóst og ég tala nú ekki um það blogg og þær yfirlýsingar sem hafa komið frá nokkrum þingmönnum," sagði Sigmundur Davíð.

Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagðist hins vegar furða sig á þeirri skapvonsku, sem kæmu fram í bréfi forseta Íslands vegna eðlilegra spurninga forsætisráðuneytisins.

„Ég hef áhyggjur af okkur öllum ef embættismenn æðsta embættis landsins geta ekki svarað einföldum spurningum eins og þessum af fyllstu kurteisi heldur fari í vont skap," sagði Valgerður.

Ásmundur Einar Daðason sagði að ríkisstjórnin hefði verið í heilögu stríði við forseta Íslands frá því hann hafnaði því í fyrra skiptið að staðfesta Icesave-lög. „Forsætisráðherra ætti að hætta þessu bulli og snúa sér að því sem mestu máli skiptir, að koma Íslandi út úr kreppunni," sagði Ásmundur Einar.

Bréf forseta Íslands

1. bréf forsætisráðuneytisins
2. bréf forsætisráðuneytisins
3. bréf forsætisráðuneytisins
4. bréf forsætisráðuneytisins
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka