Orkustofnun ítrekar að stærstu jarðskjálftarnir sem fundist hafa í byggð í kjölfar niðurdælingar á affallsvatni frá Hellisheiðarvirkjun eru ekki manngerðir jarðskjálftar, ekkert frekar en að snjóflóð myndi teljast manngert þótt skíðamaður kæmi því af stað. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Orkustofnun.
„Tímasetning atburðanna er þó afleiðing niðurdælingarinnar og því tengd mannlegum athöfnum. Þá þykir ljóst að niðurdælingin eykur ekki líkur á því að stærri jarðskjálftar en þeir sem annars geta orðið af náttúrulegum ástæðum geti myndast.
Auk þess er hugsanlegt að með niðurdælingunni verði jarðskjálftarnir fleiri og minni en hefðu orðið án niðurdælingar.
Vegna tilmæla iðnaðarráðherra í fjölmiðlum um bætta upplýsingagjöf af hálfu Orkustofnunar þá er stofnunin boðin og búin til þess að leggja sig alla fram á því sviði.
Jafnframt vill stofnunin árétta að Orkustofnun hefur opinberað jafnóðum þær upplýsingar sem stofnunin hefur búið yfir frá Orkuveitu Reykjavíkur um fyrirhugaða niðurdælingu og afleiðingar hennar. Má þar benda á sérstakt minnisblað sem sérfræðingar frá fjórum stofnunum tóku saman; Orkustofnun, Veðurstofu Íslands, Íslenskum orkurannsóknum og Orkuveitu Reykjavíkur sem er aðgengilegt á vefsíðu Orkustofnunar.
Aðalástæður þess að niðurdælingar er krafist eru verndun grunnvatns og yfirborðsvatns sem og nauðsyn þess að viðhalda vatnsþrýstingi í þeim jarðhitakerfum sem unnið er úr. Algengt er að smáskjálftavirkni komi fram við niðurdælingu, einkum ef hún er undir miklum þrýstingi.
Niðurdæling þéttivatns og skiljuvatns frá Hellisheiðarvirkjun hefur nýlega verið flutt frá Gráuhnúkum yfir til Húsmúla og aukin vegna stækkunar virkjunarinnar. Þetta hefur haft í för með sér aukna skjálftavirkni á svæðinu sem fram hefur komið á mælum og einnig eru upplýsingar um að stærstu skjálftarnir sem hafa verið allt að 4 á Richter hafi verið merkjanlegir í byggð," segir í tilkynningu frá Orkustofnun.