Gerendur skaða kirkjuna

Neskirkja í Reykjavík.
Neskirkja í Reykjavík. mbl.is/Þorkell

„Ég trúi Guðrúnu Ebbu Ólafs­dótt­ur og vil þakka henni þá hetju­dáð að segja sögu sína. Skaðar sag­an kirkj­una? Nei, fórn­ar­lömb skaða ekki held­ur aðeins gerend­ur," seg­ir sr. Sig­urður Árni Þórðar­son, prest­ur í Nes­kirkju, m.a. í pistli sín­um á vefn­um tru.is um mál Guðrún­ar Ebbu og ásak­an­ir henn­ar á hend­ur föður sín­um, Ólafi Skúla­syni bisk­up.

Sr. Sig­urður Árni byrj­ar pist­il sinn á að rifja upp að fyr­ir liðlega 30 árum hafi hann ásamt þrem­ur fé­lög­um sín­um gengið um Hornstrand­ir. Áður en lagt hafi verið af stað hafi verið farið til messu á sunnu­degi í Staðar­kirkju í Aðal­vík.

„Prest­ur var kom­inn að sunn­an og við sem vor­um í kirkju hl­ustuðum á hann pré­dika um huliðshjálm, það sem væri hulið og það sem væri op­in­bert. Ræða hans um það sem ekki sést barst inn í eyr­un og út yfir hvanna­stóð og fífla­breiður. Þetta var svo sér­kenni­leg ræða að við, þrír prestling­ar og einn tækni­menntaður, rædd­um um prest­inn huliðshjálm alla leiðina aust­ur í Horn. Orðið huliðshjálm­ur dreg­ur síðan fram í hug mér mynd­ina af hon­um sem lagði út af þessu orði sem ekki er til í Biblí­unni. Það var Ólaf­ur Skúla­son," rit­ar sr. Sig­urður Árni og held­ur áfram:

„Nú hef­ur dótt­ir hans lyft huliðshjálmi og sýnt hann í nýju ljósi. En sjálf hef­ur Guðrún Ebba Ólafs­dótt­ir komið úr vill­um og fel­um og losnað úr álaga­fjötr­um. Sjón­varps­viðtal við hana fyr­ir liðlega viku var lam­andi. Síðan las ég harm­sögu henn­ar, sem er sögð af slá­andi og þroskuðu æðru­leysi og líka virðingu fyr­ir ást­vin­um. En til­gang­ur­inn er aug­ljós­lega að láta gott af leiða og hjálpa þolend­um og sam­fé­lagi til vit­und­ar um kyn­ferðisof­beldi og hvað er til ráða.

Í nán­um sam­skipt­um fólks á heim­il­um krem­ur of­beldi. Í stofn­un­um, íþrótta­fé­lög­um og skól­um líka verður fólk fyr­ir illsku. Í öll­um lög­um og stofn­un­um sam­fé­lags­ins verður fólk fyr­ir ólíðandi fram­komu. Of­beld­is­menn leita valds og aðstæðna sem auðvelda þeim ill­virki. Þar sem vel­vilji og traust rík­ir eins og í trú­fé­lög­um og kirkj­um geta slík­ir menn nýtt aðstæður sín­ar til mis­notk­un­ar á fólki. En fólk á að geta treyst kirkj­um. Prest­ar eru ekki full­komn­ir menn, en gera á rík­ar kröf­ur til and­legr­ar heil­brigði þeirra og per­sónuþroska. Þjóðkirkj­an verður að skerpa enn skimun­ar­ferla prests­efna og skoða reglu­lega þjóna kirkj­unn­ar. Hið sama ætti að gera varðandi starfs­fólk skóla og tóm­stunda­fé­laga.

Ég trúi Guðrúnu Ebbu Ólafs­dótt­ur og vil þakka henni þá hetju­dáð að segja sögu sína. Skaðar sag­an kirkj­una? Nei, fórn­ar­lömb skaða ekki held­ur aðeins gerend­ur. Jesús Krist­ur leysti álög og stóð alltaf með þolend­um. Kirkja hans á alltaf að berj­ast fyr­ir að þau fái notið rétt­læt­is. Guðrún Ebba hef­ur orðið okk­ur fyr­ir­mynd um að hægt er að lyfta huliðshjálmi. Og skila­boðin eru skýr um að við meg­um ekki firra okk­ur ábyrgð og láta sem ekk­ert sé: Ekki líta und­an."

Sr. Sigurður Árni Þórðarson
Sr. Sig­urður Árni Þórðar­son
Guðrún Ebba Ólafsdóttir
Guðrún Ebba Ólafs­dótt­ir Árni Sæ­berg
mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert