Hóta aðgerðum vegna makríldeilunnar

Makríll hefur verið að veiðast í miklu magni við Ísland.
Makríll hefur verið að veiðast í miklu magni við Ísland.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins stefnir að því að tillaga um aðgerðir gegn Íslandi vegna makrílveiða Íslendinga verði samþykkt fyrir jól. Tillagan sem nú er rædd felur í sér bann við innflutningi á tilteknum fiskafurðum frá Íslandi.

Þetta kemur fram í frétt á fréttaveitunni Agence Europe.

Samningaviðræður um skiptingu makrílskvótans fyrir næsta ár hefjast í London í dag, en miklar deilur hafa verið um veiðarnar undanfarin ár eftir að makríll fór að ganga á mið við Ísland. Evrópusambandið og Noregur hafa gagnrýnt harkalega veiðar Íslendinga og Færeyinga. Vegna ósamkomulags um skiptingu kvótans hefur veiðin verið mun meiri en fiskifræðingar hafa mælt með.

Þar sem ekki hefur tekist að ná samkomulagi um skiptingu makrílkvótans er skipum frá Evrópusambandinu bannað að landa makríl hér á landi. Evrópusambandið hefur sömuleiðis sett löndunarbann á íslensk skip, en það hefur engin áhrif á veiðarnar því að íslensk skip hafa aldrei landað makríl í hafnir innan ESB.

Íslensk stjórnvöld hafa komið því á framfæri við ESB að það sé brot á EES-samningnum að setja á einhvers konar viðskiptaþvinganir á Ísland vegna deilunnar. Það sé t.d. ekki heimilt að banna innflutning á fiski frá Íslandi vegna deilunnar.

Í bókun 9 við EES-samninginn segir „að samningsaðili [megi] hafna löndun á fiski úr fiskistofnum sem báðir aðilar hafa hagsmuni af að nýta og sem alvarlegur ágreiningur er um stjórnun á.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert