Fjöldi ábendinga barst lögreglu eftir að birtar voru myndir af manni úr öryggismyndavél á Vegamótastíg sem hugsanlegt er talið að tengist ráninu í úraverslun Michelsens á Laugavegi á mánudagsmorgun.
Verið er að vinna úr ábendingunum en enginn hefur verið handtekinn í tengslum við málið.
Myndin var tekin skömmu áður en ráðist var inn í verslunina. Hún var birt þar sem einn ræningjanna þriggja var með samskonar hvítan bakpoka og maðurinn á myndinni er með. Auk þess óskar lögregla sérstaklega eftir vitnum að grunsamlegum mannaferðum á Vegamótastíg frá klukkan tíu til hálfellefu á mánudagsmorgun.
Hefur Frank Michelsen, eigandi úraverslunarinnar, heitið einni milljón króna fyrir upplýsingar sem geta leitt til þess að ránið verði upplýst og þýfið komi í leitirnar.