Má ekki nota kannabis sem verkjalyf

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt alls fjóra karlmenn í skilorðsbundið fangelsi fyrir kannabisræktun. Einn sakborningurinn sagðist nota kannabis vegna bakverkja en dómurinn segir, að maðurinn verði að nota lögleg verkjalyf.

Um er að ræða tvö aðskilin mál. Í öðru málinu var fimmtugur karlmaður dæmdur í 4 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir rækta 109 kannabisplöntur á heimili sínu í Kópavogi en hann var einnig með í fórum sínum 217 grömm af maríjúana og lítilsháttar af amfetamíni. Maðurinn hefur áður fengið dóma fyrir fíkniefnabrot.

Í hinu málinu voru þrír karlmenn,  einn fimmtugur, annar 34 ára og sá þrðji 29 ára, dæmdir í 2 mánaða skilorðsbundið fangelsi hver fyrir að standa saman að því að rækta 89 kannabisplöntur í iðnaðarhúsi í Hafnarfirði.

Allir mennirnir játuðu sök en sögðu kannabisplönturnar ekki hafa verið ætlaðar til sölu. Sá elsti hélt því fram fyrir dómi, að hann notaði kannabis vegna bakverkja í kjölfar slyss. Dómurinn segir hins vegar, að vörslur og meðferð efnisins sé óheimil samkvæmt lögum og maðurinn verði því að leita annarra leiða til að lina verki sína, svo sem með löglegum verkjalyfjum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert