„Það er í raun allt óbreytt frá því þetta gerðist [ránið í verslun Michelsen] nema að því leytinu til að við erum með myndir af gerendum en getum ekki greint frá hverjir það eru, af því við þekkjum þá ekki,“ segir Hákon B. Sigurjónsson lögreglufulltrúi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í samtali við mbl.is.
Mennirnir þrír sem frömdu vopnað rán í verslun Michelsen á Laugavegi sl. mánudag ganga því enn lausir. Hins vegar hafa borist ábendingar til lögreglunnar sem verið sé að kanna.
Í gær birti lögreglan mynd af karlmanni sem er grunaður um að vera einn ræningjanna. Hákon segir að enginn hafi enn verið handtekinn í tengslum við málið. Lögreglan geti á þessari stundu veitt takmarkaðar upplýsingar, t.d. varðandi það hverrar þjóðar mennirnir séu og hvort þeir séu farnir úr landi með þýfið.
Hákon segir ljóst að rannsókn málsins verður erfiðari eftir því sem tíminn líður. Aðspurður segir hann fjölmenni koma að rannsókninni.
Frank Michelsen úrsmíðameistari segir í samtali við mbl.is að starfsmenn verslunarinnar séu brattir og að jafna sig eftir þessa erfiðu lífsreynslu.
„Við horfum á þetta þeim jákvæðu augum að við sluppum öll heil heilsu. Enginn meiddist, enginn slasaðist þó að við höfum gengið í gegnum þessa miklu ógn, þar sem hótunum með byssu var yfir okkur og einhverskonar skoti, hvort sem það hefur verið púðurskot eða ekki, var notað til að auka ógnina,“ segir Franch í samtali við mbl.is.
„Okkur líður þokkalega en við lítum á það þannig að það hefði getað farið verr,“ bætir hann við. Óttinn sé hins vegar enn til staðar. „Okkar heppni er svo að þetta voru mjög agaðir menn og greinilega vanir,“ segir Franch og bætir við að talið sé að þarna hafi fyrrverandi hermenn verið á ferðinni.
Nú liggur fyrir það tjón sem verslunin varð fyrir í ráninu að sögn Franchs. Hann segist hins vegar ekki vilja gefa það upp. „Þetta var gríðarlegt tjón,“ segir hann.
Meðal þess sem ræningjarnir komust á brott með voru úr frá Rolex, Tudor og Michelsen. Frank segir að ránið hafi aðeins tekið 50 sekúndur. „Svo held ég að það hafi komið styggð að þeim því þeir hætta mjög skyndilega og hlaupa út, þegar þeir sjá fólk, bæði í apótekinu og í bókabúð Máls og Menningar, standa úti og horfa beint á þá,“ segir Franch.
Hvað varðar úrin sem ræningjarnir höfðu á brott með sér, þá segir Frank að þau verði eða hafi verið flutt úr landi. Ekki sé hægt að koma þeim í verð hér á landi þar sem þau séu merkt með kennitölum. „Þetta er svo auðrakið hér á Íslandi,“ segir Frank. Skv. þeim upplýsingum sem hann hafi fengið frá Rolex úraframleiðandanum þá muni úrin líklegast enda í Svartfjallalandi sem sé „eins og svarthol fyrir þýfi í Evrópu.“
Frank hefur boðist til að greiða hverjum þeim sem getur veitt upplýsingar um málið sem mun stuðla að lausn þess eina milljón kr. Frank tekur hins vegar fram að fólk verði að koma öllum ábendingum til lögreglunnar, annað hvort í síma 444-1000 eða senda tölvupóst á abending@lrh.is. Það sé lögreglunnar að fara yfir ábendingarnar.
„Ef þetta kemst upp, þá er það ekki með neinni eftirsjá sem ég mun greiða þá milljón. Því þetta er það alvarlegur atburður, að ef þeir komast upp með þetta, hvar bera þeir niður næst?“