Íslendingar töpuðu naumlega fyrir Indverjum, 14:16, í 11 umferð heimsmeistaramótsins í brids, sem haldið er í Hollandi. Íslenska liðið er í 5. sæti í undankeppni, sem lýkur um helgina en átta efstu liðin komast áfram í úrslit.
Sá leikur sem vakti mesta athygli í 11. umferð var á milli Ítala og Hollendinga, sem eru í tveimur efstu sætunum. Lengi vel leit út fyrir að Hollendingar myndu vinna öruggan sigur en Ítalir náðu að minnka muninn undir lokin og leiknum lauk 16:14 fyrir Holland.
Íslendingar spila við Kanadamenn nú síðdegis í 12. umferð.