Þingsályktunartillaga þingmanna Sjálfstæðisflokksins um aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf felur m.a. í sér, að dugi þau úrræði sem verða í boði fyrir skuldsett heimili ekki til að þau geti staðið við skuldbindingar sínar verði þeim heimilt að afsala fasteign sinni til viðkomandi banka.
Í kjölfarið falli allar kröfur á viðkomandi skuldara vegna fasteignalána niður. Tillögurnar gera ráð fyrir að þetta úrræði verði í boði fram til ársloka 2013.
Í umfjöllun um tillögur Sjálfstæðisflokksins í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að þingmennirnir leggja til, að allar skattahækkanir á heimilin sem hafa orðið frá því að núverandi ríkisstjórn tók við vorið 2009 verði dregnar til baka á næstum tveimur árum og að lokið verði við endurskipulagningu á fjármálum heimilanna á grundvelli hinnar svokölluðu 110% leiðar.
Ennfremur er lagt til að öllum viðskiptavinum Íbúðalánasjóðs verði boðið upp á að skipta úr verðtryggðum fasteignalánum yfir í óverðtryggð með föstum vöxtum til fimm ára, líkt og viðskiptabankarnir eru farnir að bjóða.