Stækkunarstjóri ESB á Íslandi

Štefan Füle, framkvæmdastjóri stækkunar- og nágrannastefnu ESB
Štefan Füle, framkvæmdastjóri stækkunar- og nágrannastefnu ESB Reuters

Štefan Füle, framkvæmdastjóri stækkunar- og nágrannastefnu ESB, mun á miðvikudag og fimmtudag heimsækja Ísland í fyrsta sinn síðan landið sótti um aðild að Evrópusambandinu. Í heimsókninni mun hann ræða við bæði ráðamenn og hagsmunaaðila um innihald nýútkominnar framvinduskýrslu um Ísland og næstu skref í aðildarferlinu.

„Viðræðurnar við Ísland hafa farið vel af stað og ganga vel, enda samstarfið mjög gott,"sagði Štefan Füle rétt fyrir brottför frá Brussel.

„Margt í stefnumálum og löggjöf sameinar Ísland og ESB og hagkerfi okkar eru vel samtvinnuð,“sagði stækkunarstjórinn um getu Íslands til að standa við skuldbindingar sem fylgja ESB aðild.

Framkvæmdastjórinn mun eiga fundi með forsætisráðherra, utanríkisráðherra, forseta Alþingis og nefndarmönnum utanríkismálanefndar Alþingis. Hann mun einnig hitta fulltrúa Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins í tveggja daga heimsókn sinni til Reykjavíkur, að því er fram kemur í tilkynningu.

Ísland sótti um aðild að Evrópusambandinu í júlí 2009. Nú þegar hafa fjórir samningskaflar verið opnaðir og tveimur verið lokað tímabundið. Framvinduskýrsla framkvæmdastjórnar ESB um Ísland var birt í síðustu viku þar sem fram kemur að Ísland sé áfram vel í stakk búið til að uppfylla kröfur ESB varðandi löggjöf. Upplýsingaskrifstofa ESB verður opnuð í Reykjavík innan nokkurra vikna með það að markmiði að auka almenna umræðu um ESB og mögulega aðild að sambandinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka