Stefna stjórnvalda í sjávarútvegi óljós

Frá fundinum í kvöld, Ólína Þorvarðardóttir í ræðustól.
Frá fundinum í kvöld, Ólína Þorvarðardóttir í ræðustól. mbl.is/Árni Sæberg

Tekist var á um það hvernig haga ætti stjórn sjávarútvegsmála við Ísland á fundi sem Samband ungra sjálfstæðismanna hélt í Valhöll í kvöld. Framsögumenn voru Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og Kristrún Mjöll Frostadóttir, hagfræðingur hjá Arion banka.

Ólína gerði í erindi sínu grein fyrir frumvarpi ríkisstjórnarinnar um breytt fiskveiðistjórnunarkerfi, svonefndu stóra frumvarpi, og þeim breytingum sem hún ásamt Lilju Rafney Magnúsdóttur, þingmanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, hefur lagt til að verði gerðar á því.

Lagði Ólína meðal annars áherslu á mikilvægi þess að afnema séreignarfyrirkomulag á sjávarútvegsauðlindinni og að nýliðun yrði tryggð í greininni meðal annars með því að gefa strandveiðar frjálsar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þá tók hún fram að þetta væri fyrsta skipti sem hún hefði komið inn í Valhöll, höfuðstöðvar Sjálfstæðisflokksins. Um ákveðin tímamót væri því að ræða fyrir hana.

Illugi kaus að fjalla um efni fundarins fyrst og fremst út frá hugmyndafræðilegum sjónarhóli og sagðist oft sakna þess að rætt væri um málið á þeim forsendum. Lagði hann áherslu á mikilvægi séreignarréttarins til þess að skapa verðmæti.

Hann vakti sjálfur athygli á því í lok erindis síns að hann hefði ekkert tjáð sig um þær hugmyndir sem Ólína hefði kynnt til sögunnar og sagði ástæðuna einfaldlega þá að ekkert lægi fyrir um það hver stefna ríkisstjórnarinnar væri í sjávarútvegsmálum eða hvað hún ætlaði að gera í þeim efnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka