„Þetta tekur á taugakerfið hjá mönnum. Gengið í dag og gær hefur verið gott, sem er jákvætt," segir Björn Eysteinsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í brids, sem er í 5. sæti á HM í Hollandi eftir leiki dagsins. Átta efstu þjóðirnar komast í úrslit.
„Hljóðið í okkur er fínt, menn eru að taka þátt í miklu rallíi frá morgni til kvölds þar sem hver einasti leikur er spennandi, sumt er inni og annað úti. Menn eru nokkurn veginn á pari miðað við okkar markmið, sem var að vera í einu af átta efstu sætunum eftir undankeppnina og komast í úrslit," segir Björn.
Níu leikir eru eftir fram á laugardag en úrslitin hefjast á sunnudag. Nokkrir sterkir andstæðingar eru eftir, eins og Pólland, Ísrael, Holland og Bandaríkin - sveit 2. Einnig nefnir Björn Ástralíu, Egyptaland og Búlgaríu, sem hafi verið að gera góða hluti á mótinu.