Íslandsbanki segist vera vel í stakk búinn til að takast á við hugsanleg áhrif dóms Hæstaréttar sem hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur, um að samningur banka um fjármögnunarleigu vegna vinnuvélar væri í raun lánssamningur en ekki leigusamningur
Íslandsbanki telur að varúðarreikningur bankans standi undir þeirri niðurstöðu sem í dag var staðfest í Hæstarétti. Enn eigi þó eftir að greina að fullu áhrifin af niðurstöðu dómsins.
Þetta kemur fram í tilkynningu sem bankinn hefur sent frá sér vegna dóms Hæstaréttar. Hún er svohljóðandi:
„Dómur Hæstaréttar nr.282/2011 sem var kveðinn upp í dag 20. október kveður á um að endurreikna beri gengistryggða fjármögnunarleigusamninga vegna ólögmætrar gengistryggingar. Ergo, fjármögnunarþjónusta Íslandsbanka, mun fara vandlega yfir dómsniðurstöðu Hæstaréttar og í kjölfarið tilkynna hvernig málum verður háttað við framkvæmd endurútreikninga.
Íslandsbanki hefur áður lýst því yfir að þeir viðskiptavinir sem þegar hafa nýtt sér úrræði bankans vegna gengistryggðra fjármögnunarleigusamninga hafa ekki fyrirgert mögulegum betri rétti sínum leiði niðurstaða Hæstaréttar til hagfelldari niðurstöðu.
Nánari upplýsingar verða sendar til viðskiptavina á næstu dögum en einnig er hægt að fylgjast með framgangi mála á heimasíðu Ergo, www.ergo.is.
Íslandsbanki telur að varúðarreikningur bankans standi undir þeirri niðurstöðu sem í dag var staðfest í Hæstarétti. Enn á þó eftir að greina að fullu áhrifin af niðurstöðu dómsins. Eiginfjárhlutfall bankans er 28%, sem er vel fyrir ofan það 16% lágmark sem Fjármálaeftirlitið setur. Íslandsbanki er því vel í stakk búinn til að takast á við hugsanleg áhrif dómsins,“ segir í tilkynningunni.