Enginn getað lesið öll málsgögnin

Gestur Jónsson, Jakob R. Möller og Kristín Edwald, verjendur Jóns …
Gestur Jónsson, Jakob R. Möller og Kristín Edwald, verjendur Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Tryggva Jónssonar og Kristínar Jóhannesdóttur. Morgunblaðið/Sigurgeir

Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í skattahluta Baugsmálsins, sagði fyrir Héraðsdómi í dag að allir vitnaframburðir í málinu hefðu styrkt framsögu sakborninga og grafið undan því að eitthvað refsivert hafi átt sér stað. Gestur krafðist þess að Jón Ásgeir verði sýknaður af öllum ákæruliðum. Ekki hafi verið færð sönnun fyrir sekt hans. Málsvörn lýkur í dag.

Gestur sagði jafnframt að honum virtist sem að í þessu máli væri allt með öðru sniði en hann ætti að venjast á tæplega 35 ára starfsævi sinni sem lögmaður, þar sem reglan hefði verið sú að ef deilur komi upp þá komi þeir fyrir dóm og gefi skýrslu sem að rannsókn málsins komi. Þannig gefi lögreglumenn sem rannsaki umferðalagabrot og ofbeldisbrot undantekningalaust skýrslu fyrir dómi komi upp álitamál. Sú regla virðist ekki gilda í þessu máli að sögn Gests, þar sem enginn af þeim sem rannsökuðu málið og bjuggu til málsgrundvöllinn hefur komið fyrir dóm. Enginn frá skattrannsóknarstjóra, enginn frá ríkisskattstjóra og enginn lögreglumannanna sem rannsökuðu málið hefðu verið kallaðir fyrir dóm.

„Á sama hátt hélt ég að öll sönnunargögn þyrfti að bera undir ákærða fyrir dómi. Ég hef litið svo á að ákærður maður verði ekki sakfelldur á grundvelli sönnunargagns sem ekki er borið undir hann fyrir dómi,“ sagði Gestur einnig. Hinsvegar hefðu hvorki lögregluskýrslurnar né skýrslur ríkisskattstjóra verið bornar undir hin ákærðu í málinu, Jón Ásgeir Jóhannesson, Tryggva Jónsson og Kristínu Jóhannesdóttur. Þetta væri þeim mun merkilegra vegna þess að málið hefði frá upphafi verið mjög óljóst og hin ákærðu öll lögð fram gögn þar sem málsatvikum er lýst með öðrum hætti en í ákærunni, og sá framburður síðar verið styrktur með framburði vitna.

Gestur sagði það þó skiljanlegt hvers vegna málin væru með þessum hætti, í ljósi þess að málareksturinn hafi nú staðið í rúman áratug. „Málsmeðferðartíminn er orðinn svo langur að flestir þeirra sem rannsökuðu málið eru nú horfnir til allt annarra starfa. Það er örugglega ekki auðvelt verk hjá saksóknara að kalla fólk til og láta það setja sig aftur inn í mál sem það vann fyrir áratug síðan og mæta svo fyrir rétt,“ sagði Gestur. Hann benti jafnframt á að frá upphafi hafi alls fjórir saksóknarar sótt málið. „Það er mjög auðvelt að skilja að menn tapi þræðinum í slíkri vinnu og ég leyfi mér að trúa því að þetta sé að hluta til skýringin á því af hverju gagnaframvísunin er eins og hún er í þessu máli.“

Gestur sagði að það væri engin auðveld leið fyrir venjulegt fólk að vinna með gögnin í þessu máli. Hann sagðist leyfa sér að efast um það að nokkur maður sem að málinu komi hafi náð að kynna sér öll gögnin, enda spanni þau á bilinu 8.000 – 9.000 síður. Gestur sagði að þessi háttur að dengja inn ógrynni af gögnum sem ekki nokkur leið sé að fara yfir sé að verða einhver helsta ógn við réttláta málsmeðferð í dómskerfinu. „Það er óhjákvæmileg afleiðing svona vinnubragða að enginn sem að málinu kemur nær að fara í gegnum öll gögnin og hættan er sú að í huga þeirra verði til sjálfstæð mynd af atburðum.“  Enginn vandi sé að lesa hluta af gögnum málsins og fá allt aðra niðurstöðu en næsti maður sem les annan hluta af gögnum málsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  • Engin mynd til af bloggara Heimir Lárusson Fjeldsted: Dramb
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert