Iceland Express segir að verið sé að útvega farþegum, sem lentu í Manchester í kvöld vegna bilunar sem kom upp í flugvél félagsins, hótelgistingu í borginni. Vélin var á leiðinni til Alicante á Spáni þegar bilunin kom upp. Er stefnt sé að því að fljúga þeim til Spánar í fyrramálið.
Farþegar sem biðu flugs til Íslands í Alicante eru ýmist komnir á hótel eða á leiðinni á hótel. Ekki liggur ljóst fyrir nákæmlega hvenær brottför þeirra verður frá Alicante, segir í tilkynningu frá Iceland Express.
Flugvélin varð að lenda í Manchester í Bretlandi um kl. 20 í kvöld eftir að viðvörunarljós í flugstjórnarklefa gaf til kynna að eldur gæti verið laus í einu farangursrými hennar. Við skoðun eftir lendingu kom í ljós að viðvörunarljósið sjálft var bilað og því aldrei nein raunveruleg hætta á ferðum.
Vélin verður áfram í borginni í nótt. Eftir skoðun flugvirkja kom í ljós að útvega þurfti varahlut í flugvélina og það tekur flugvirkja einhverjar klukkustundir að ljúka viðhaldi sínu á henni.