Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra viðurkenndi á Alþingi í dag að hann hefði svikið loforð um að áfram yrði rekinn legudeild á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði. Hann sagði að sér líkaði hins vegar ekki að sitja undir ásökunum frá „brennuvörgunum“ þegar menn væru að reyna að aðlaga útgjöld ríkisins að tekjum.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, spurði ráðherrann út í málefni St. Jósefsspítala, en búið er að taka ákvörðun um að loka spítalanum. Hún minnti Guðbjart á að hann hefði lofað því að áfram yrði á spítalanum rekin legudeild og að þar yrðu stundaðar rannsóknir.
Guðbjartur sagði rétt að hann hefði lofað því að þarna yrði rekin legudeild. Hann sagði að við gerð fjárlagafrumvarpsins hefði hann sagt að hann treysti sér ekki til að ná markmiðum um sparnað með því að undanskilja Landspítalann. Þegar stjórnendur hans hefðu lagt fyrir hann tillögu um að loka deildinni á St. Jósefsspítala hefði hann sagt að hann gæti ekki bæði gert körfu um sparnað og sett einhver skilyrði og því hefði hann samþykkt tillöguna.
Þorgerður Katrín gagnrýndi ráðherrann harðlega og sagði að hann hefði svikið loforð líkt og íbúar í Þingeyjarsýslu hefðu mátt upplifa nýverið. Hún sagðist vilja fá að vita hvaða starfsemi ætti að vera í St. Jósefsspítala eða hvort ætlunin væri að hafa ljósin þar áfram slökkt.
Guðbjartur sagði að ríkissjóður hefði þurft að takast á við 10-15% samdrátt í tekjum og stórhækkaðan vaxtakostnað í kjölfar hrunsins. Hann sagði makalaust að þurfa að sitja undir þessu, „og svo koma brennuvargarnir og biðja okkur um skýringar.“ Hann sagði að ríkissjóður yrði að aðlaga útgjöld að tekjum.
Guðbjartur sagði að það hafi ekki verið ásetningur sinn að svíkja loforð sem hann gaf um St. Jósefsspítala. Hann sagði að rætt hafi verið við Hafnarfjarðabæ um með hvaða hætti væri hægt að nýta húsið. Rætt hefði verið um hvort þar yrði öldrunarþjónusta og eins að heilsugæslan kæmi að málinu.