Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur að fenginni ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar heimilað 1000 tonna veiði á rækju í Ísafjarðardjúpi. Níu ára hlé hefur verið á rækjuveiði á svæðinu og áfram gildir bann við rækjuveiði á öðrum innfjarðasvæðum.
Í árlegri stofnmælingu Hafrannsóknastofnunarinnar sem lauk 5. október sl. kom fram veruleg hækkun stofnvísitölu rækju á Skjálfanda og í Djúpi. Á fyrrnefnda svæðinu er rækjan þó mjög smá og því leggur stofnunin til að ekki verði hafnar veiðar á svæðinu.
Í Ísafjarðardjúpi er aftur á móti lagt til að opnað verði fyrir rækjuveiðar með 1000 tonna aflamarki og er það gert með reglugerð sem birt er í dag. Veiðar mega hefjast á morgun.
Aflamark í rækju í Djúpi skiptist á 10 báta en þar af uppfylla aðeins sex skilyrði um leyfi til veiðanna. Tveir bátanna eru í krókaaflamarkskerfi og tveir eru ekki gerðir út í Ísafjarðardjúpi sem er skilyrði leyfisveitingar, segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.