Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt 19 ára gamlan karlmann í árs fangelsi fyrir tvö rán en maðurinn var sýknaður af ákæru fyrir ránstilraun.
Maðurinn fór inn í verslun 10-11 í Grímsbæ aðfaranótt síðasta aðfangadags og ógnaði starfsmanni þar með hníf. Hafði maðurinn 15.500 krónur á brott með sér úr versluninni og sígarettupakka að verðmæti 929 krónur.
Í yfirheyrslu sagðist maðurinn hafa sagt við afgreiðslumanninn: „Komdu með alla peningana og einn rauðan Winston“. Afgreiðslumaðurinn hefði orðið við bón hans, en maðurinn sagðist hafa sagt: „Sorrí, ég verð að gera þetta“ og síðan hlaupið á brott. Maðurinn var handtekinn fljótlega og játaði á sig ránið.
Nú í apríl fór maðurinn inn í söluturn við Hraunberg með andlit sitt hulið, ógnaði afgreiðslustúlkunn með hníf og skipaði henni að afhenda sér peninga. Hafði hann um 20.000 krónur á brott með sér úr söluturninum. Hann var handtekinn daginn eftir og játaði brotið.
Maðurinn var einnig sakfelldur fyrir innbrot og þjófnað. Hann var hins vegar sýknaður af ákæru fyrir ránstilraun en hann fór í apríl inn í verslunina 10-11 í Glæsibæ með andlit sitt hulið og vopnaður klaufhamri í þeim tilgangi að fremja rán en hvarf frá þegar enginn starfsmaður var sjáanlegur.