Varðskipið Þór siglir nú frá Halifax í Kanada til Íslands. Landhelgisgæslan segir að Vestmannaeyjar verði fyrsti viðkomustaður varðskipsins sem muni leggja að bryggju í Eyjum 26. október nk.
Gæslan segir að skipið verði opið til sýnis milli kl. 14 og 20 og allir séu boðnir hjartanlega velkomnir um borð.
Fram kemur á vef LHG að þegar komið verður til Vestmannaeyja eigi skipið að baki sjö þúsund sjómílna (um fjórtán þúsund kílómetra) siglingu frá Concepcion í Síle. Siglt hafi verið af stað 28. september en síðan hafi Þór farið um þrjár heimsálfur og árstíðir. Farið hafi verið frá Síle að vori, um Panamaskurð að sumri og siglt að hausti gegnum Boston og Halifax, yfir Norður- Atlantshafið og inn í veturinn á Íslandi. Áhöfn varðskipsins eigi því mikið ferðalag að baki.
Varðskipið Þór leggst að Miðbakka Reykjavíkurhafnar fimmtudaginn 27. október nk. kl. 14 þar sem tekið verður á móti því, auk þess sem varðskipið verður opið til sýnis föstudaginn 28. október, laugardaginn 29. október og sunnudaginn 30. október. Allir landsmenn eru boðnir velkomnir.