Þriðjungur gæti hugsað sér að kjósa Guðmund

Guðmundur Steingrímsson.
Guðmundur Steingrímsson. mbl.is

Einn af hverjum þremur segir það koma til greina að kjósa nýtt framboð Guðmundar Steingrímssonar. Framboðið nýtur mest fylgis meðal Samfylkingarmanna. Þetta kemur fram í könnun sem MMR gerði á afstöðu fólks til framboðsins.

Könnunin var gerð dagana 6.-10. október og var heildarfjöldi svarenda 921 einstaklingur. Af þeim sem tóku afstöðu sögðu 33,5% að það kæmi til greina að kjósa nýtt framboð Guðmundar.

Athyglisvert er að bera þessa niðurstöðu saman við könnun MMR frá því í september á þessu ári. Þá kannaði MMR afstöðu fólks til þess hvort kæmi til greina að kjósa Besta flokkinn ef hann byði fram í næstu Alþingiskosningum. Þá sögðust 21,4% þeirra sem tóku afstöðu það kæmi til greina að kjósa Besta flokkinn ef hann byði fram og 78,6% sögðust ekki myndu kjósa slíkt framboð.

Samkvæmt könnuninni var nokkur munur á afstöðu fólks til þess hvort það kæmi til greina að kjósa nýtt framboð Guðmundar Steingrímssonar eftir aldri, búsetu og sérstaklega eftir stuðningi við stjórnmálaflokka. Af þeim sem tóku afstöðu voru þeir sem bjuggu á höfuðborgarsvæðinu jákvæðari gagnvart framboðinu en þeir sem búa á landsbyggðinni. Þannig sögðust 36,6% höfuðborgarbúa að það kæmi til greina að kjósa nýtt framboð Guðmundar Steingrímssonar en hlutfallið var 28,1% meðal fólks á landsbyggðinni. Þeir sem voru á aldrinum 30 – 49 ára voru jákvæðari í garð framboðs Guðmundar því 39,4% þeirra sögðu það koma til greina að kjósa hann borið saman við 36,1% þeirra sem voru í yngsta aldurshópnum (19 – 29 ára) og 24,2% elsta aldurshópsins (50 – 67 ára). Af þeim sem tóku afstöðu var stuðningsfólk Samfylkingarinnar líklegast til að gefa nýju framboði Guðmundar Steingrímssonar atkvæði sitt en stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins ólíklegast. Þannig sögðust 65,9% Samfylkingarfólks að það kæmi til greina að kjósa framboðið borið saman við 47,5%, stuðningsfólks Vinstri grænna, 17,4% stuðningsfólks Framsóknarflokksins og 7,4% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert