Þriðjungur stuðningsmanna Samfylkingarinnar, 36,1%, treysta Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra best til að gegna embætti formanns Samfylkingarinnar. Kemur þetta fram í nýrri skoðanakönnun, sem MMR vann fyrir Viðskiptablaðið.
Þegar horft er til allra sem afstöðu tóku til spurningarinnar nýtur Guðbjartur Hannesson mests stuðnings, en 38,6% svarenda sögðust treysta honum best. Næstur í röðinni kom Dagur B. Eggertsson með 25,4%, en 14,9% sögðust treysta Jóhönnu best til að gegna formannsembættinu. Össur Skarphéðinsson nýtur stuðnings 12,2% og Árni Páll Árnason 8,9%.
Ef einungis er horft til stuðningsmanna Samfylkingarinnar þá nýtur Jóhanna mests trausts, 36,1%, en Guðbjartur er í öðru sæti með 28,3% stuðning. Dagur mælist með 17,2% stuðning meðal Samfylkingarfólks, Össur með 9,7% og Árni Páll með 8,7%, samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins.
Samfylkingin heldur landsfund nú um helgina á Hlíðarenda og hefst hann á morgun. Jóhanna Sigurðardóttir er þar ein í kjöri til formanns og Dagur B. Eggertsson er einnig sá eini sem boðið hefur sig fram í varaformannskjöri.