Velferðarráðherra sagði á Alþingi í dag að fagfólk á vegum embættis hans hafi farið þrjá hringi umhverfis landið til að meta hvar megi skera niður í heilbrigðisþjónustu án þess að það verði veruleg þjónustubreyting.
„Hefur ríkisstjórnin kjark til að verja velferðina og skera niður lúxus og bruðl á öðrum sviðum," sagði Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins, á Alþingi í dag. Hann hóf umræðu um niðurskurð í heilbrigðis- og velferðarmálum.
Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, sagði að þetta væri í fyrsta skipti sem Ásmundur Einar ræddi þessi mál við hann og samt hefðu þeir setið saman í fjárlaganefnd og þeir hefðu verið í kjördæminu að verja hagsmuni spítala um allt land.
Þá sagði Guðbjartur, að Ásmundur Einar hefði gleymt því, þegar hann talaði um fækkun á ríkisstarfsmönnum í velferðarkerfinu, að heill málaflokkur, málefni fatlaðra, hefði færst yfir til sveitarfélaganna.
Guðbjartur sagði, að 10-15% tekjufall hefði orðið eftir hrun og stilla þurfi saman tekjur og útgjöld. „Við sögðumst ætla að verja velferð, heilbrigðismál, menntamál og lífeyrismálin, það er bótaþegana," sagði Guðbjartur og bætti við að það hefði tekist. „Þessu er bara kastað út af borðinu hér í umræðunni," sagði hann. „Umræðan er gríðarlega mikilvæg en í guðanna bænum höldum henni ekki á þessu fyrirsagna- og fullyrðingaplani sem leiðir okkur ekkert áfram."