Hafna útboði á pappírshirðu

Dagblöð eru drjúgur hluti heimilissorps.
Dagblöð eru drjúgur hluti heimilissorps. Ásdís Ásgeirsdóttir

Vinstri græn í Reykjavík hafna því að að hirða á pappírsefnum verði boðin út líkt og lagt er til í tillögu að innleiðingu og fyrirkomulagi hirðu endurvinnsluefna hjá Reykjavíkurborg fyrir næsta ár.
Í tillögunni er lagt til að hirða á pappírsefnum verði boðin út en sorphirða Reykjavíkurborgar sinni áfram hirðu á blönduðu heimilissorpi. Þá verði hirða plastefna sem hefst árið 2013, hluti af útboði á hirðu pappírsefna.

Í ályktun stjórnar VG Reykjavík um sorphirðu segir að á meðan áformum um ítarlegri flokkun á heimilisúrgangi og endurvinnslu af hálfu borgarstjórnar sé fagnað, séu  tillögur meirihlutans ekki bara fagnaðarefni. Enda feli þær einnig í sér útvistun á sorphirðu og einkavæðingu á móttöku endurvinnsluefna sem nú er í höndum sameignarfyrirtækisins Sorpu bs.

Þá segir:

„Vinstri græn leggjast eindregið gegn einkavæðingar- og útvistunaráformum á sorpi í Reykjavík. Almannafyrirtækið Sorpa mun bíða verulegt tjón af, ef þessar fyrirætlanir ná fram að ganga. Sorpa hefur um árabil þjónað Reykvíkingum á góðan og hagkvæman hátt og því hefur kostnaður þeirra vegna sorphirðu verið hóflegur. Vinstri græn telja fyrirhugaðar breytingar meirihlutans í borginni fela í sér óheillavænlegt skref af þeirri braut og lýsa fullri samstöðu með starfsfólki Sorphirðu Reykjavíkur sem hefur sinnt starfi sínu með sóma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert