Tillaga verður lögð fyrir landsfund Samfylkingarinnar sem hefst síðdegis í dag, að skuldbindandi reglum um aðferðir við val á framboðslista, sem fela m.a. í sér að opnum prófkjörum verði hætt.
Fyrir landsfundinum liggja m.a. tillögur um skipan þriggja manna sátta- og siðanefndar Samfylkingarinnar og tillaga að siðareglum sem ráðherrum, þingmönnum, sveitarstjórnarfulltrúum og öðrum sem starfa í nafni Samfylkingarinnar beri að hafa í heiðri í störfum sínu.
Nefnd innan Samfylkingarinnar leggur til við landsfund flokksins, að lög flokksins mæli fyrir um bann við persónulegum sjálfsskuldarábyrgðum í þágu flokksins, aðildarfélaga, og kjördæmis- og fulltrúaráða.
Nefndin hafði það hlutverk að fjalla um reglur um fjármál frambjóðenda og flokksins og skila tillögum. Leggur hún til að kjördæmisráðum og aðildarfélögum verði heimilt að afla framlaga frá fyrirtækjum og lögaðilum í viðkomandi kjördæmum í samráði við skrifstofu flokksins. Skrifstofan skal senda viðkomandi reikning vegna framlagsins og skila andvirði framlagsins til þess kjördæmisráðs eða aðildarfélags sem aflaði þess, að frádregnu (5-10%) umsýslugjaldi.
Fyrir fundinn verða einnig lagðar fram umfangsmiklar tillögur sem fela í sér grundvallarendurskipulagningu á starfi flokksins, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá skrifstofu Samfylkingarinnar.
„Tillögurnar eru afrakstur eins og hálfs árs umbótastarfs innan Samfylkingarinnar sem hófst í kjölfar útkomu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis í apríl 2010 og tók vinnuferlið m.a. mið af niðurstöðum skýrslunnar,“ segir í fréttatilkynningunni
Alls leggur framkvæmdastjórn flokksins fyrir landsfundinn á fimmta tug lagabreytingatillagna.