Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, segir að samfélagmiðlar á borð við Facebook og YouTube séu orðnir mikilvægari í alþjóðamálum en ríkisstjórnir.
„Þessir svonefndu samfélagsmiðlar hafa breytt lýðræðisstofnunum okkar þannig, að það sem fer fram í hefðbundnari valdastofnunum, þingum, ráðuneytum, jafnvel Hvíta húsinu eða forsetaembættinu og ríkisstjórninni í mínu landi, er nánast á hliðarlínunni," sagði Ólafur Ragnar í viðtali við sjónvarpsstöðina CNN.
„Ég veit að þetta er mikil yfirlýsing, einkum frá manni sem hefur varið stærstum hluta lífs síns innan þessara stofnana. En kraftur samfélagsmiðla er, að mínu viti, að breyta stjórnmálunum með slíkum hætti, að ég tel vonlaust að hinar hefðbundnu, formlegu stofnanir lýðræðiskerfa geti fylgt því eftir."
Í viðtalinu segir Ólafur Ragnar að mótmælaaðgerðir, sem skipulagðar séu gegnum samfélagsmiða, beri vott um heilbrigði í samfélögum. Þá segir hann, að Íslendingar geti nýtt sér nýja tækni til að ná áttum eftir efnahagshrunið.
„Það hefur alltaf verið Íslendingum mikilvægt að lesa og skapa bókmenntir. En þessi áhugi færðist yfir á tölvur, vefi, farsíma og þessháttar með tæknibyltingunni. Ísland er nú í fremstu röð á þessum sviðum og nú er komin fram ný kynslóð, sem stofnar fyrirtæki í þessari starfsemi," hefur CNN eftir Ólafi Ragnari.
CNN segir, að á myndbandi sem nú hefur birst víða sjáist forsetinn sitja við borð og bjóða gestum og gangandi í pönnukökur.
„Þetta er frábær hugmynd vegna þess að hún undirstrikar að íslenskt samfélag er opið og vingjarnlegt. Þetta er eitt þeirra landa þar sem fólk gerir ráð fyrir að allir gestir séu vinir nema annað komi í ljós. Víðast hvar er þróunin á hinn veginn og þar reikna menn með því að það stafi ógn af öllum nema annað komi í ljós."
„Hann segir að pönnukökuboðið standi og hann muni bera þær fram eins og amma hans gerði, með rjóma og sultu.
„En ég ætla ekki að opna pönnukökuveitingahús. Þetta er mun smærra í sniðum."