Segja dóminn ekki gefa fordæmi

Vinnuvélar á geymslusvæði við Hafnarfjarðarhöfn.
Vinnuvélar á geymslusvæði við Hafnarfjarðarhöfn. Júlíus Sigurjónsson

Fjármögnunarfyrirtækið Lýsing segir dóm Hæstaréttar í máli Íslandsbanka og Kraftvélaleigunnar ekki fordæmisgefandi fyrir sína fjármögnunarsamninga þar sem þeir séu frábrugðnir samningum Íslandsbanka í veigamiklum atriðum.

Yfirlýsing Lýsingar sem tekin er af vefsíðu þeirra:

„Vegna dóms Hæstaréttar í máli 282/2011 frá 20. okt. 2011 um fjármögnunarleigusamning/kaupleigusamning Íslandsbanka hf. vill Lýsing taka fram að samningur Íslandsbanka er í veigamiklum atriðum frábrugðinn fjármögnunarleigusamningum Lýsingar. Af þeim sökum getur Lýsing ekki litið á niðurstöðu dómsins sem fordæmi vegna fjármögnunarleigusamninga sinna.

Í máli sem rekið er fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur reynir á lögmæti gengistryggingar fjármögnunarleigusamnings Lýsingar og verður aðalflutningur málsins hinn 16. nóvember nk. Má gera ráð fyrir dómsuppkvaðningu í byrjun desember. Verði héraðsdómi áfrýjað til Hæstaréttar, ætti endanleg niðurstaða að liggja fyrir fyrri hluta næsta árs.
Að mati Lýsingar eru samningar félagsins um fjármögnunarleigu skýrir leigusamningar en ekki lánasamningar og falla þar af leiðandi ekki undir gildissvið vaxtalaga og þann skilning Hæstaréttar að lögin banni gengistryggingu lána. Samningarnir eru ólíkir bílasamningum og öðrum kaupleigusamningum sem meirihluti Hæstaréttar telur sambærilega umþrættum samningi Íslandsbanka. Verða málsástæður Lýsingar skýrðar ítarlega við aðalmeðferð dómsmálsins hinn 16. nóvember nk.
Sú óvissa sem skapast hefur um einstaka samninga og samningsform í kjölfar dóma Hæstaréttar um bílasamninga frá því í júní 2010 er bagaleg bæði fyrir viðskiptavini Lýsingar og félagið sjálft. Lýsing vonast til þess að óvissu vegna þessara mála verði lokið sem allra fyrst.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert