Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu verst allra frétta af rannsókn sinni á ráni sem var framið í úra- og skartgripaverslun Michelsen sl. mánudag. Lögreglan segir að rannsókninni miði ágætlega áfram en gefur ekki frekari upplýsingar um málið.
Lögreglan segir að tilkynning verði send á fjölmiðla þegar hægt verði að upplýsa nánar um framgang málsins, en ekki sé von á nýjum tíðindum fyrir helgi.
Lögreglan á í samskiptum við erlend lögregluyfirvöld í tengslum við rannsóknina en svipuð rán hafa verið framin víðar í Evrópu á undanförnum vikum og mánuðum.
Þrír menn vopnaðir byssum frömdu rán í versluninni sl. mánudagsmorgun. Tvær byssur hafa fundist og voru þær báðar eftirlíkingar. Franch Michelsen úrsmíðameistari sagði í samtali við mbl.is að hann hefði heyrt skothvell þegar ræningjarnir voru inni í versluninni, en ekki liggur fyrir hvort skoti af verið hleypt af úr raunverulegri skammbyssu eður ei. Þeir komust undan með fjölmörg úr, m.a. af gerðinni Rolex, Tudor og Michelsen. Tjónið er gríðarlegt að sögn Franchs.
Fram hefur komið í Morgunblaðinu að samkvæmt heimildum séu ræningjarnir jafnvel taldir hafa farið úr landi síðdegis á mánudag eða þriðjudagsmorgun, þrátt fyrir að eftirlit á Keflavíkurflugvelli hafi verið hert.
Rannsókn lögreglunnar er enn í fullum gangi og sömu heimildir herma að mennirnir hafi haft þrjá til fjóra bíla til umráða umræddan morgun. Einn hafi þeir skilið eftir á Vegamótastíg í gangi og farið á öðrum að Smáragötu. Þar sá vitni þá skipta um bíl.
Þá hefur rannsókn á byssunum sem notaðar voru leitt í ljós að þær voru keyptar í verslun á höfuðborgarsvæðinu.