Eigum kost á að skipta um forseta

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, við þingsetningu.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, við þingsetningu. mbl.is/Golli

„Við eigum kost á að skipta um forseta á næsta ári og ég hlakka til,“ sagði Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG, í sjónvarpsþættinum Silfri Egils, í umræðum um bréfaskipti forsætisráðherra og forseta Íslands.

Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist vera þingræðissinni og að ekki væri skynsamlegt að hafa forseta sem er ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum samkvæmt stjórnarskrá en tæki sér þau miklu völd sem núverandi forseti gerði. Hann krafðist þess hins vegar að embættin sýndu hvort öðru kurteisi.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson tók það fram að stundum hefði forsetinn nýtt þetta vald sitt vel og það væri kannski þess vegna sem þessum aðferðum væri beitt gegn honum.

Álfheiður vakti athygli á því að aðeins hefði verið kallað eftir siðareglum og vísaði til skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis en Sigmundur Davíð tók fram að það væri ekki hlutverk forsætisráðherra.

„Þetta er vandamál sem við kannski losnum við á næsta ári,“ sagði Álfheiður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert