Kjörstjórn landsfundar Samfylkingarinnar hefur úrskurðað kosningu til flokksstjórnar sem fram fór á fundinum ógilda vegna tæknilegra ágalla á framkvæmd. Komu ágallarnir fram við talningu, að því er fram kemur á vef Samfylkingarinnar.
Kjörstjórn hefur ákveðið að kosningin til flokksstjórnar verði endurtekin. Þeir einir munu hafa atkvæðisrétt sem kusu á landsfundinum og þeir sömu verða í kjöri og áður.
Leggur kjörstjórn það fyrir framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar að sú kosning verði framkvæmd með skriflegum hætti í póstkosningu.
Kjósa á 30 fulltrúa í flokksstjórn. Ekki var búið að tilkynna um úrslit.
Allar aðrar kosningar á landsfundinum standa óhaggaðar, þar á meðal kosning stjórnar flokksins og flokksráðs þar sem Margrét K. Sverrisdóttir fékk flest atkvæði.