Skotvís furðar sig á þeirri ákvörðun sveitarstjórnar Húnaþings vestra að ætla á komandi rjúpnaveiðitímabili að selja rjúpnaveiðileyfi í afrétti. Telur félagið alls óvíst að löndin teljist til eignarlands.
Sveitarstjóri Húnaþings vestra hefur auglýst að sveitarstjórn selji veiðileyfi fyrir rjúpnaveiðar á Víðidalstunguheiði, Tvídægru og Arnarvatnsheiði og að þeim sem ekki hafi keypt leyfi sé óheimilt að fara þangað til veiða.
Húnaþing hefur undanfarin ár auglýst sölu veiðileyfa og hafa spunnist um það deilur. Meðal annars voru bréfaskriftir milli Skotvís og sveitarfélagsins sl. vetur.
Skotvís vísar í villidýralögin og telur að öllum Íslendingum sé heimilt að veiða dýr í almenningum, á afréttum utan landareigna lögbýla, enda geti enginn sannað eignarrétt sinn til þeirra. Ekki hefur verið fjallað um umrætt svæði í óbyggðanefnd.
Skotvís hefur óskað eftir gögnum frá sveitarfélaginu um eignarhald svæðisins en Húnaþing vestra telur ótvírætt að það fari með eignarhald á svæðinu. Sveitarfélagið telur sér ekki skylt að afla eða leggja fram gögn sem staðfesta það. Það upplýsir þó að unnið sé að upplýsingaöflun vegna væntanlegra krafna ríkisins um mörk þjóðlenda. Þeirri vinnu sé ekki lokið og ekki tímabært að leggja þau fram.
„Viðbrögð sveitarfélagsins við kurteislegri beiðni Skotvís er því ekki hægt að túlka á annan veg en að um grófa aðför sé að ræða að rétti almennings til veiða og það ber að fordæma. Því hvetur Skotvís alla þá sem veiða á umræddum svæðum og lenda í útistöðum við meinta landeigendur að kalla sýslumann á vettvang,“ segir í tilkynningu Skotvís.
Rjúpnaveiðin hefst um næstu helgi.