Samfylkingin fær í flestan sjó

Landsfundi Samfylkingarinnar lauk með fjöldasöng undir stjórn Ómars Ragnarssonar.
Landsfundi Samfylkingarinnar lauk með fjöldasöng undir stjórn Ómars Ragnarssonar.

„Vegna ykkar framlags er Samfylkingin nú fær í flestan sjó," sagði Jóhanna Sigurðardóttir þegar hún ávarpaði gesti á landsfundi Samfylkingarinnar nú síðdegis og sleit fundinum.

„Nú sækjum við fram rétt eins og samfélagið allt og nýtum til fulls þau tæpu tvö ár sem eftir eru af þessu kjörtímabili," sagði Jóhanna. „Rétt eins og við höfum staðið saman í gegnum þann erfiða tíma, sem liðinn er frá hruni, höfum við nú allar forsendur til að fylgja árangrinum eftir og byggja upp enn betra Ísland. Í því verkefni er lykilatriði að Samfylkingin verði sá burðarás samstöðu og stefnufestu sem hún hefur hingað til verið. Nú er það okkar verkefni að sjá til þess að fjármálamarkaðurinn fái aldrei aftur eftirlitslítið veiðileyfi á landsmenn þannig að heimili fólks, vinnustaðir þess og ævisparnaður verði veðsett upp í topp og allt lagt undir."

Á fundinum voru m.a. samþykkt ný lög Samfylkingarinnar og ýtarleg stjórnmálaályktun þar sem m.a. segir, að nýtt frumvarp til nýrra laga um stjórn fiskveiða verði lagt fram á yfirstandandi þingi í samræmi við heildstæða auðlindastefnu. Brýnt sé að tryggja varanlegt eignarhald og forræði þjóðarinnar yfir auðlindum sjávar og að arðurinn af nýtingu þeirra renni til samfélagsins.

Þá segir í stjórnmálaályktuninni, að hrunið og alþjóðlegar hræringar á fjármálamörkuðum kallar á aukið samstarf milli þjóða. Eitt mikilvægasta verkefni endurreisnarinnar og brýnasta verkefni þjóðarinnar á sviði alþjóðasamvinnu sé að Ísland gangi í Evrópusambandið. Aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið miði vel áfram og nýleg framvinduskýrsla sýni, að Íslendingar séu ágætlega í stakk búnir til að takast á við það metnaðarfulla verkefni að gerast fullgildir aðilar að sambandinu. Þá séu fyrirhugaðar breytingar á stefnu Evrópusambandsins í sjávarútvegi og landbúnaði fagnaðarefni  fyrir Íslendinga og líklegt sé að breytingarnar muni auðvelda samningaviðræður í þessum mikilvægu málaflokkum.

Vefur Samfylkingarinnar 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert